Netnámskeið

Heilbrigt samband við mat

Heiðdís Snorradóttir, næringarfræðingur Endurnæringar stýrir 4ra vikna námskeiði þar sem farið verður yfir grunnstoðir og leiðina til heilbrigðs sambands við mat.

Námskeiðið er netnámskeið þar sem hópur fólks hittist í netheimum og tekur þátt í fræðslu og umræðum.

Staðsetning: Námskeiðið fer fram í gegnum netið.

Dagsetning: Dagsetning fyrir næsta námskeið hefur ekki verið ákveðin

Heilbrigt samband við mat byggir á þremur grunnstoðum: venjum, innsæi og næringu. Á námskeiðinu verður farið yfir þessar grunnstoðir og hvernig þekking á þeim stuðlar að jafnvægi í okkar mataræði. Námskeiðið er þannig grunnur til þess að rýna í eigin heilsu- og matarhegðun og hvernig við getum bætt okkar mataræði.

Helstu verkfæri námskeiðs eru verkefnablöð, fræðsla og umræður.

Farið verður yfir leiðir til þess að setja saman góðar og næringarríkar máltíðir. Jafnframt verða kynnt mikilvæg hugtök eins og máltíðargluggar og hvernig má nýta þá sem best. Þannig verður til sérútbúið mataræði sem er aðsniðið að hverjum og einu. Unnið er með fyrirlestra, umræður í hópum og verkefni leyst í hverri viku. Næringarlæsi er eflt með því að kenna álestur umbúða af matvælum og auka þannig meðvitund um hvað maturinn gefur okkur. Áhersla er lögð á að átta sig á hvað maturinn gefur líkamlega og andlega og kynnast mat á annan hátt en með því að telja hitaeiningar eða vigta. Farið er yfir helstu mýtur þegar kemur að mat og hvað það felur í sér að eiga í heilbrigðu sambandi við mat. Allt efni námskeiðsins er byggt á ritrýndum heimildum og nýjustu þekkingu hverju sinni þegar kemur að mataræði.

Jafnframt er lögð áhersla á svokallaða "þyngdarhlutlausa nálgun" en í ljósi þess hve rík megrunarmenning er þá er námskeiðið ekki ætlað sem skyndikúr eða skyndilausn. Rannsóknir hafa sýnt að ef einblínt er einungis á þyngd þá geti það skapað óheilbrigðar matarvenjur og heilsubrest.

Önnur markmið eru möguleg og þá með tilliti til meiri orku, betri lífsgæða, betri meltingar, minni streitu og kvíða. Þannig ná einstaklingar að setja sér markmið sem endast út ævina í stað þess að þau renni út á tíma.

Námskeiðið er í gangi í 4 vikur og fer fram á Kara Connect.

Námskeiðið hentar öllu fólki sem langar að ná betri tökum á mataræði- og venjum.

Helstu markmið námskeiðsins:

  • Setja sér raunhæf markmið sem endast til lengri tíma útfrá daglegri rútínu og heilsufari.
  • Styrkja traust á eigið matarinnsæi sem getur leitt til minni streitu, kvíða og samviskubits sem við finnum oft fyrir í tengslum við mat.
  • Skoðum hvernig við getum greint matarhegðun okkar og tileinkað okkur betri matarvenjur.
  • Öðlumst aukið næringar- og matvælalæsi sem skilar sér í meðvitaðri ákvörðunum tengt fæðuvali.